Evrópska efnahagssvæðið er helfjötur Íslands

 

 

 
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir fullveldisrétti almennings og sjálfstæði Íslands.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. 

  

 


Evrópska efnahagssvæðið er helfjötur Íslands

 

Fyrst birt í Morgunblaðinu 06. september 2011.
 
Loftur Altice Þorsteinsson

 
Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) var einhver stærstu mistök sem gerð hafa verið í íslendskri sögu. Með réttu má segja að samningurinn um EES sé helfjötur sem draga mun allan lífsþrótt úr þjóðinni. Afleiðingar samningsins hafa nú þegar komið fram í Icesave-kúgun nýlenduveldanna Bretlands og Hollands, sem háð hafa efnahagsstríð gegn Íslandi með dyggum stuðningi flestra ríkja í Evrópusambandinu (ESB). Hægt er að styðja úrsögn úr EES með fjölmörgum sterkum rökum: 
 
Fríverzlunarsamningur er í gildi við ESB
Ekki er víst að allir viti, að í gildi er fríverzlunarsamningur Íslands við ESB. Þessi samningur var gerður árið 1972 og er því nær 40 ára. Samningurinn frá 1994 um EES er bara viðauki við fríverzlunarsamninginn og tilgangurinn var að þoka landinu nær undirgefni við Evrópuríkið. Ekkert nema þráhyggja Evrópusinna stendur í vegi fyrir að fríverzlunarsamningurinn verði þróaður áfram, á hliðstæðan hátt og Svisslendingar hafa gert með góðum árangri. 
 
Segja þarf upp Schengen-endaleysunni
Ísland gerðist aðili að Schengen 2001 og þrátt fyrir augljósa galla ríghalda Evrópusinnar í þennan skaðlega samning. Reynt er að halda þeirra bábilju að fólki að eitthvert gagn hafi verið að honum. Staðreyndin er hins vegar sú, að augljósir ókostir Schengen bara vaxa. Í mörgum löndum ESB eru menn að draga í land með hugmyndina um opin landamæri, enda auðveldar það bara umferð glæpamanna og landflótta fólks sem sloppið hefur inn um götótt landamæri Suður-Evrópu. 
 
Ákærur frá ESA verður að stöðva
Varla líður svo dagur að Íslandi berist ekki ákæra eða hótun frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Öllum eru í fersku minni hótanirnar frá Per Sanderud, vegna Icesave-kúgunarinnar. Undan þessum ákærum verður ekki komist nema með uppsögn EES-samningsins. Í gegnum EES-samninginn er ESB með óþolandi afskipti af innanríkismálum Íslands. Útþenslusambandi Þýskalands og Frakklands má ekki líðast að þröngva gæluverkefnum sínum upp á Íslendinga. 
 
Stöðva verður niðurlægingu Alþingis
Mikill tími Alþingis fer í skaðlega eða óþarfa lagasetningu, vegna fyrirmæla/tilskipana frá ESB. Þingmenn eru uppteknir við að færa í lög hin undarlegustu boð og bönn, sem kunna að eiga vel heima í ESB en eru hrein afglöp við íslenskar aðstæður. Niðurlæging Alþingis verður ekki stöðvuð nema með úrsögn landsins úr EES. 
 
Bankahrunið má rekja til EES-samningsins
Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu, að án aðildar Íslands að EES hefði íslendskt fjármálakerfi ekki hrunið. EES var ekki komið á fót til að auðvelda Íslandi að sækja fjármagn í greipar evrópskra stórvelda, heldur til að þjóna nýlendu-hagsmunum Evrópu. Fyrirfram mátti því vita að fæti yrði brugðið fyrir íslendsku bankana. Ef ekki eru strax rofin EES-tengslin, eru miklar líkur á annarri fjármála-kreppu af sömu ástæðum. Varla vilja Íslendingar viðhalda ógn af þessu tagi. 
 
Kostnaðarsöm aðild að EES
Árlega eru greiddir milljarðar króna fyrir aðgang að EES. Hafi landsmenn áhuga á greiðum viðskiptum við Evrópu er fríverzlun miklu vænlegri kostur. Fríverzlun fylgja ekki ókostir EES-samningsins og óhæfilegur kostnaður. Þegar allt er talið, er öruggt að EES-samningurinn er hindrun í vegi eðlilegra viðskipta við Evrópu, en ekki sú hagsbót sem Evrópusinnar fullyrða. 
 
Svisslendingar eru ánægðir með fríverzlun við ESB
Svissland hefur bæði hafnað aðild að ESB og EES-samningnum. Þetta ríki sem liggur í miðri Evrópu telur hagsmunum sínum betur borgið utan ESB en innan þess. Svisslendingar vita hvað þeir eru að gera, enda hafa þeir margra alda reynslu af stórveldabrölti Þýskalands og Frakklands. Þótt í Sviss séu margar af virtustu alþjóðastofnunum heims, hafa Svisslendingar engan áhuga á svonefndu friðarbandalagi Evrópu. Þeir vita að ESB er einungis tilraun til að koma Evrópu undir sameiginlega stjórn Þýskalands og Frakklands, í stað fyrri tilrauna hvors ríkis fyrir sig.

Sanngjörn krafa um að Ísland verði fyrir Íslendinga
Kominn er tími til að Íslendingar læri að meta sitt eigið land. Svo nefnd tvíhliða réttindi, annars vegar Íslendinga í Evrópu og hins vegar ESB-manna á Íslandi, er skrumskæling raunveruleikans. Svona samningar, eins og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, eru einungis gerðir fyrir auðmenn en ekki almenning og hvað auðmenn varðar hallar verulega á Ísland. Bann við landakaupum útlendinga er því þarft fyrsta skref til afnáms EES-samningsins.

Burt með ógildan EES-samning
Færa má sterk rök fyrir þeirri skoðun að EES-lögin frá 13. janúar 1993 séu í raun ógild. Landráðalögin um EES voru samþykkt af Alþingi með naumum meirihluta, þrátt fyrir áköf mótmæli landsmanna. Safnað var undirskriftum um 34.000 kjósenda sem skoruðu á Alþingi að setja málið í þjóðaratkvæði. Þótt áskorunin hafi ekki beinst að forseta lýðveldisins, hefði þessi mikli fjöldi nægt alvöru forseta til að hafna undirskrift laganna og setja þau þannig í hendur fullveldishafans, almennings. Með EES-lögunum var sjálfstæði landsins skert og stjórnarskráin brotin. EES-samningurinn er því ógildur og marklaus. 
 
Barátta Samfylkingar gegn sjálfstæði Íslands
Alþýðuflokkurinn hafði forustu um setningu Landráðalaganna um EES. Undir nafni Samfylkingar hafði sama fólk forustu um tilraunir til að koma Icesave-klafanum á almenning. Núna beitir Samfylkingin öllu sínu afli til að Ísland verði innlimað í ESB. Þetta óþjóðholla fólk var jafnvel andstæðingar Íslands í þorskastríðunum. Hið fyrsta þarf að losa helfjötur EES-samningsins, en það verður ekki gert með Samfylkinguna á ríkisjötunni. 
 


Hið fyrsta þarf að losa helfjötur EES-samningsins,

en það verður ekki gert með Samfylkinguna á ríkisjötunni.


 


mbl.is Ekki hlutverk ráðuneytisins
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband